Marsatónleikar

Laugardaginn 20. nóvember næstkomandi halda Lúðrasveitin Svanur og Lúðrasveit verkalýðsins sameiginlega marsatónleika í Ráðhúsi Reykjavíkur og hefjast tónleikarnir klukkan 15. Fyrir réttu ári síðan stóðu þessar sveitir að slíkum tónleikum í fyrsta sinn og voru undirtektir slíkar að full ástæða þótti til að endurtaka leikinn.

Lúðrasveitirnar munu leika marsa á víxl af miklum móð og verður víða komið við í marsabókmenntunum. Unnendur marsa munu örugglega ekki sjá á eftir því að gera sér ferð í Ráðhúsið þennan eftirmiðdag.

Á tónleikunum verður meðal annars fluttur glænýr mars eftir Einar Jónsson básúnuleikara og stjórnanda Skólalúðrasveitar Grafarvogs. Marsinn er saminn sérstaklega fyrir þessa tónleika og heitir Gengið á regnbogann. Það sem gerir mars Einars einstakan er að lúðrasveitirnar kallast á í marsinum og keppa þar meira að segja á stundum. Mun þetta vera í fyrsta skipti á Íslandi að því er fróðustu menn þekkja að mars er saminn fyrir 2 lúðrasveitir.

Stjórnandi Lúðrasveitarinnar Svans er Brjánn Ingason og stjórnandi Lúðrasveitar verkalýðsins er Snorri Heimisson.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis.

Sjá nánar á heimasíðu Lúðrasveitar verkalýðsins og viðburð á Facebook