Um SÍL

Samband íslenskra lúðrasveita, SÍL, er samstarfsvettvangur lúðrasveita á Íslandi og er vefsíðu sambandsins ætlað að vera nokkurskonar upplýsingamiðstöð fyrir félaga í lúðrasveitunum og aðra sem hafa áhuga á þessari starfsemi.

Sögu SÍL má rekja til ársins 1946, þegar Lúðrasveit Vestmannaeyja, Lúðrasveit Reykjavíkur og Lúðrasveitin Svanur komu saman í Reykjavík. Karl O. Runólfsson, tónskáld kom þá með tillögu um að stofna samband lúðrasveita á Íslandi. Stofnfundur sambandsins var loks haldinn í Hljómskálanum 19. júní 1954, en stofndagur sambandsins telst vera 21. júní sama ár. Á stofnfundinum voru fulltrúar frá átta hljómsveitum víðsvegar að af landinu. Fyrsti formaður sambandsins var Karl O. Runólfsson. Aðrir í stjórninni voru Bjarni Þóroddsson gjaldkeri og Jón Sigurðsson ritari.

Frá upphafi hafa verið haldin landsmót í nafni sambandsins, en oftast hafa lúðrasveitirnar skipst á að skipuleggja þau. Landsmótin hafa gegnt því hlutverki að auka tengsl og kynni á milli lúðrasveitanna, auk þess sem þau hafa gefið góða mynd af þessu starfi í landinu almennt hverju sinni.

Nótnaútgáfa hefur verið áberandi hluti af starfseminni, en sambandið hefur gefið út nótur af íslenskum lögum útsettum fyrir lúðrasveitir, eftir því sem fjárhagur þess leyfir. Af nýlegum útgáfum má nefna dægurlagasafnið Leikandi létt, útsett af Össuri Geirssyni og endurútgáfu á útsetningum Ellerts Karlssonar af íslenskum ættjarðarlögum, sem af innvígðum er kölluð Hvíta bókin.

Sambandið tekur einnig þátt í norrænu samstarfi. SÍL er aðili að samtökunum NoMU (Nordisk musik union), sem eru regnhlífarsamtök norrænna tónlistaráhugamanna. Fyrir íslenskt lúðrasveitafólk er Norræna blásarasveitin sýnilegasti hluti samtakanna. Hún er ætluð ungum blásurum sem eru komnir langt í hljóðfæranámi. Námskeið á vegum hljómsveitarinnar eru haldin í eina viku á hverju sumri á einhverju Norðurlandanna.