Nóg um að vera

Það verður nóg um að vera laugardaginn 22. nóvember:

Fjölskyldutónleikar í Ráðhúsinu
Lúðrasveit Verkalýðsins heldur barna- og fjölskyldutónleika í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan 14:00. Stærsta verkið á tónleikunum er Tobbi túba, einleikari í því verki er Roine Hultgren og sögumaður er Linda Ásgeirsdóttir, leikkona, (Solla stirða). Meðal annarra laga má nefna rússneska marsinn A Slavic Farewell, tvö lög úr Dýrunum í Hálsaskógi, stef úr sjónvarpsþáttunum The Simpsons og Selection from CHICAGO.
Hljóðfæraleikarar verða um 40 og auðvitað verður frítt inn eins og alltaf.

Hausttónleikar í Hafnarfirði
Þeir sem vilja meira eftir að tónleikar Lúðrasveitar Verkalýðsins eru búnir geta mætt í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði klukkan 16:00 sama dag, 22. nóvember. Þar heldur Lúðrasveit Hafnarfjarðar tónleika. Á efnisskránni verður tónlist úr ýmsum áttum og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Auk marsa og sólóstykkja verða m.a. leikin lögin Soul Bossanova, sem flestir kannast við úr myndunum um Austin Powers og Wunderland bei Nacht, en á þessu ári eru liðin þrjátíu ár síðan Lúðrasveit Hafnarfjarðar gaf það út á plötu ásamt nokkrum öðrum lögum.
Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Þorleikur Jóhannesson, og eru þetta fyrstu tónleikarnir þar sem hann heldur á sprotanum. Aðgangseyrir er 500 krónur.