Karlavígi fallið og nýr stjórnandi í Hafnarfirði

Síðasta karlavígið í stjórn Lúðrasveitar Hafnarfjarðar féll á dögunum þegar Arnbjörg Jóna Jóhannsdóttir tók við sem formaður sveitarinnar. Hún er fyrsta konan sem gegnir því embætti í rúmlega 50 ára sögu sveitarinnar. Auk þess mun þetta vera í fyrsta skipti sem konur eru í meirihluta í stjórn sveitarinnar. Aðrir stjórnarmeðlimir eru Atli Týr Ægisson, varaformaður, Ásgeir Örvar Stefánsson, gjaldkeri, Magnea Arnardóttir, ritari og Erla Axelsdóttir, meðstjórnandi.

Stefán Ómar Jakobsson, stjórnandi lúðrasveitarinnar, tekur sér frí veturinn 2003-2004. Stjórnandi í hans stað verður Þorleikur Jóhannesson, trompetleikari í sveitinni til fjölmargra ára. Þorleikur hefur spilað með lúðrasveitinni frá barnsaldri og verið einn af máttarstólpum sveitarinnar í fjölmörg ár. Hann hefur sinnt öllum helstu embættum í stjórn sveitarinnar, var m.a. formaður hennar frá 1990-1998.