Dagur lúðrasveitanna

Dagur Lúðrasveitanna verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 31. maí.
Það eru samtök lúðrasveita og skólalúðrasveita sem standa fyrir þessum degi í þeim tilgangi að kynna þá miklu starfsemi sem fram fer í lúðrasveitum á Íslandi. Í mörgum bæjarfélögum standa lúðrasveitir fyrir ýmsum uppákomum en mesta dagskráin verður á Ingólfstorgi í Reykjavík. Einnig verða tónleikar í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Skólahljómsveit Austurbæjar leikur sína dagskrá klukkan 15:00.
Dagskráin á laugardaginn hefst klukkan 13:00 með leik Lúðrasveitar Verkalýðsins og lýkur um kl. 18:00. 11 lúðrasveitir af öllu höfuðborgarsvæðinu taka þátt í deginum og röð hljómsveitanna á torginu verður þessi:
13:00 Lúðrasveit Verkalýðsins
13:20 Yngri blásarasveit Tónmenntaskólans og Sigursveins
13:40 Skólahljómsveit Mosfellsbæjar
14:00 Skólahljómsveit Grafarvogs
14:20 Garðabær
14:40 Skólahljómsveit Kópavogs A-sveit
15:00 Hlé
15:10 Skólahljómsveit Kópavogs B-sveit
15:30 Skólahljómsveit Seltjarnarness
15:50 Skólahljómsveit Kópavogs C-sveit
16:10 Skólahljómsveit Vesturbæjar I
16:30 Skólahljómsveit Vesturbæjar II
16:50 Skólahljómsveit Vesturbæjar III
17:10 Lúðrasveit Hafnarfjarðar ásamt Skólahljómsveit Hafnarfjarðar
17:30 Lúðrasveitin Svanur
Gera má ráð fyrir að alls muni koma fram á milli 300 og 400 hljóðfæraleikarar á öllum aldri. Samband íslenskra lúðrasveita (SÍL) og Samtök íslenskra skólalúðrasveita (SÍSL) hafa unnið saman að skipulagningu dagsins, og er þetta í annað sinn sem þessi samtök stilla saman lúðra og halda dag lúðrasveitanna hátíðlegan. Stefnt er að því að gera þennan dag að árlegum viðburði, á laugardeginum fyrir sjómannadag ár hvert.