Af NoMU námskeiði

Í sumar fóru sex íslenskir hljóðfæraleikarar á hið árlega NoMU námskeið, sem að þessu sinni var haldið í Lathi í Finnlandi dagana 7. – 14. júlí. Hljóðfæraleikararnir frá Íslandi voru Vilhjálmur Ingi Sigurðarson, trompet, Freyr Guðmundsson, trompet, Anna Lilja Karlsdóttir, trompet, Daníel Friðjónsson, klarinett, Sigurður Már Valsson, túba og Ellert S.B. Sigurðarson, slagverk. Þau eru öll meðlimir í hljómsveitum sem eru starfandi í SÍL. Stjórnandi á námskeiðinu var Norðmaðurinn Kjell Seim og leiðbeinendur voru Lennard Blak Jensen, klarinettuleikari í dönsku lífvarðarhljómsveitinni í Kaupmannahöfn og Urban Grip, slagverksleikari í Sinfóníuhljómsveit Västerås. Allt skipulagsstarf var í höndum Berit Handegard frá Norsk Musikkorpsforbund, Magnus Eriksson frá Sveriges Orkesterforbund og Moa Thoors frá Finlands Svenska Sång- og Musikforbund. Þau eru öll fulltrúar sinna landa í NoMU. Námskeiðið var stutt af Nordisk Ungdomkomite, Nordisk Kulturfond og Svenska Kulturfond. Æfingar stóðu frá morgni til kvölds alla daga og síðan voru haldnir tvennir tónleikar í Ristinkirkko og Lathi City Centre. Næsta NoMU námskeið er fyrirhugað í Hamar í Noregi árið 2003.