Lúðrasveit Verkalýðsins á faraldsfæti

Lúðrasveit Verkalýðsins verður á faraldsfæti helgina 31. maí – 2. júní n.k. Verður farið austur á Neskaupstað snemma dags á föstudag og dvalið þar yfir helgina. Á laugardag höldum við tónleika í safnaðarheimili Norðfjarðarkirkju og síðar um daginn tekur sveitin þátt í hátíðahöldum í tilefni sjómannadagsins. Þá mun sveit hljóðfæraleikar taka þátt í róðrakeppni dagsins. Á sunnudeginum mun hópur úr sveitinni leika við guðsþjónustu og síðan leikur sveitin við hátíðahöld dagsins. Komið verður til baka á sunnudagskvöld.
Á efnisskrá tónleikanna á laugardag verður hluti vortónleika sveitarinnar, sovésk og rússnesk tónlist, en einnig verða íslensk lög með á efnisskránni þar á meðal Mars Op. 8 eftir Harald Guðmundsson.
Ferð þessi markar upphaf 50 ára afmælisárs sveitarinnar, og þótti við hæfi að heimsækja Neskaupstað þaðan sem einn af stofnendum og fyrsti stjórnandi Lúðrasveitar Verkalýðsins, Haraldur Guðmundsson, er ættaður frá. Sveitin mun í ferðinni leggja blóm á leiði Haraldar og þannig heiðra minningu hans.
Þar sem ferð þessi var löngu ákveðin getum við ekki verið með á degi lúðrasveitanna 1. júní, en sendum þátttakendum bestu kveðjur.