Vortónleikar Lúðrasveitar Verkalýðsins

Þar sem sólin sest aldrei
Lúðrasveit Verkalýðsins heldur sína árlegu vortónleika sumardaginn fyrsta, 25. apríl n.k., kl. 16:15.
Sveitin hefur verið iðin við að leika á óhefðbundnum tónleikastöðum og eru tónleikarnir í vor engin undantekning. Verkstæði Vélamiðstöðvar Reykjavíkur, Gylfaflöt 9, verður að þessu sinni vettvangur 49. vortónleika sveitarinnar. Efnisskráin verður helguð tónlist frá Rússlandi og Sovétríkjunum sálugu og verða jafnt leikin þekkt verk rússneskra tónbókmennta sem og gleymd baráttutónlist frá tíma Sovétríkjanna. Meðal verka á efnisskránni eru Konsert fyrir básúnu og blásarasveit eftir Rimsky Korsakoff, þar sem Ingi Garðar Erlendsson leikur einleik; Dans sovésku sjóliðanna eftir Gliere og Mars Sovét-æskunnar eftir Tulikov og fleiri verk sem horfið hafa af efnisskrám hljómsveita með falli Sovétríkjanna.
Í hléi verður kaffisala til styrktar ferðasjóði sveitarinnar. Eins og áður sagði verða tónleikarnir á vélaverkstæði Vélamiðstöðvarinnar og hefjast klukkan 16:15. Eins og ævinlega er aðgangur að tónleikum Lúðrasveitar Verkalýðsins ókeypis.