LÖG ODDGEIRS KRISTJÁNSSONAR OG JÓNS MÚLA ÁRNASONAR Í FLUTNINGI LÚÐRASVEITAR REYKJAVÍKUR

Tónleikar Lúðrasveitar Reykjavíkur í Neskirkju, þriðjudaginn 25. október kl. 20.00, eru til heiðurs tveimur af ástsælustu tónskáldum þjóðarinnar á síðustu öld, þeim Oddgeiri Kristjánssyni og Jóni Múla Árnasyni. Samanlagt hefðu þessir heiðursmenn orðið 190 ára í ár.

Oddgeir Kristjánsson og Jón Múli ÁrnasonBáðir voru miklir lúðrasveitamenn. Oddgeir var fæddur árið 1911 og starfaði í Vestmannaeyjum. Hann var stofnfélagi og stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja frá stofnun hennar árið1939 til dánardags árið 1966. Jón Múli var fæddur 1921. Hann var trompetleikari í Lúðrasveit Reykjavíkur, Lúðrasveit Verkalýðsins og Sinfóníuhljómsveit Ísland. Hann var einnig stofnfélagi Lúðrasveitar Verkalýðsins.

Lög þessara manna þekkja allir landsmenn. Þjóðhátíðarlög Oddgeirs eru sígild og til að mynda er hljómdiskur með lögum Oddgeirs frá árinu 1968, í flutningi Sextetts Ólafs Gauks enn að seljast. Söngleiki Jóns Múla og Jónasar bróður hans, þekkja flestir sem eru eldri en tvæ vetur og nutu þeir mikilla vinsælda og hafa verið fluttir víða um land.

Oddgeirslögin sem flutt verða eru öll í upprunalegri útsetningu tónskáldsins, en hafa verið raddsett af Ásgeiri Sigurðssyni klarinettuleikara á Selfossi. Lög Jóns Múla eru útsett af Þóri Baldurssyni, sem lærði sem barn á alt horn hjá Guðmundi Nordahl þáverandi tónlistarkennara í Keflavík, sem einmitt leikur á klarinett með L.R. í kvöld.

Stjórnandi Lúðrasveitar Reykjavíkur er Lárus Halldór Grímsson. Kynnar á tónleikunum verða Hafsteinn Guðfinnsson, tengdasonur Oddgeirs, og Ragnheiður Gyða, dóttir Jóns Múla.

Tónleikarnir verða í Neskirkju þriðjudaginn 25.október, kl.20:00. Aðgangseyrir að tónleikunum er 1.500 kr.