Lúðrasveit Verkalýðsins fær sér snúning

Lúðrasveit verkalýðsins heldur sína árvissu vortónleika þann 5. maí n.k. Enn á ný fetar hljómsveitin ótroðnar slóðir þegar kemur að vali á tónleikastað. Síðustu vortónleikar sveitarinnar voru haldnir á vélaverkstæði í Reykjavík, en að þessu sinni verða tónleikarnir í Þjónustumiðstöð VÍS að Skemmuvegi 2 í Kópavogi. Ástæðan fyrir þessum sérstæða tónleikastað er margþætt. Helst er að nefna skort á nothæfu húsnæði fyrir tónlist af þessum toga, en jafnframt fannst meðlimum Lúðrasveitar Verkalýðsins við hæfi að halda tónleikana á vinnustað, því að þetta er jú einu sinni Lúðrasveit Verkalýðsins. Efnisskráin er á léttum nótum því meginuppistaðan eru vinsæl danslög frá nýliðinni öld. Eins og áður sagði verða tónleikarnir laugardaginn 5. maí og hefjast þeir kl. 15:00 Eins og ætíð hjá Lúðrasveit Verkalýðsins er aðgangur að tónleikunum ókeypis.