Söngtónleikar Lúðrasveitar Reykjavíkur

-Egill, Andrea, Guðbjörn og Margrét Eir ásamt 50 manna hljómsveit í Neskirkju
Lúðrasveit Reykjavíkur mun halda stórtónleika laugardaginn 17. mars n.k. kl. 16:00 í Neskirkju. Á tónleikunum munu fjórir söngvarar syngja með sveitinni en þeir eru Andrea Gylfadóttir, Egill Ólafsson, Guðbjörn Guðbjörnsson og Margrét Eir Hjartardóttir. Á efnisskránni eru 15 lög sem sveitin hefur verið að glíma við undanfarnar vikur, þar af munu söngvararnir flytja 13 af þessum 15 lögum með hljómsveitinni. Reynir Jónasson orgelleikari kemur einnig fram með hljómsveitinni.Yngsti þátttakandinn á þessum tónleikum er Gylfi Sigurðsson slagverksleikari en hann er aðeins 9 ára gamall og leikur í einu lagi sem gestaleikari, þess má geta að hann á þrjú eldri systkyn í sveitinni. Elsti meðlimur hljómsveitarinnar er Halldór Einarsson básúnuleikari sem er 75 ára og búinn að spila í Lúðrasveit Reykjavíkur í yfir 50 ár.
Vegna umfangs þessa verkefnis mun hljómsveitin þurfa að selja inn á þessa tónleika en það hefur ekki verið gert í mörg ár. Stjórnandi Lúðrasveitar Reykjavíkur er Lárus Halldór Grímsson. Allir eru hjartanlega velkomnir.